Erlent

Bróðir Jeremy Corbyn handtekinn

Sylvía Hall skrifar
Piers Corbyn á mótmælunum í gær. Á peysu hans sjást orðin „Refuse the tracking app“, eða hafnið smitrakningarforritinu.
Piers Corbyn á mótmælunum í gær. Á peysu hans sjást orðin „Refuse the tracking app“, eða hafnið smitrakningarforritinu. Vísir/Getty

Piers Corbyn, eldri bróðir fyrrverandi leiðtoga breska Verkamannaflokksins, var á meðal þeirra fyrstu sem var handtekinn og sektaður á grundvelli nýrra laga sem sett voru vegna kórónuveirufaraldursins. Lögin banna opinberar samkomur þar sem fleiri en þrjátíu koma saman.

Corbyn hafði skipulagt mótmæli gegn sóttvarnaaðgerðum yfirvalda sem fóru fram á Trafalgar-torgi í Lundúnum í gær. Var hann sektaður um 10 þúsund pund, sem samsvarar rúmlega 1,8 milljónum íslenskum krónum.

Í samtali við Guardian segir Corbyn lögreglu hafa komið að sér eftir ræðu sem hann hélt á sviði sem sett var upp á torginu. „Ég var að kveðja fólk og leit í kringum mig og hugsaði að ég ætti að fara að koma mér, og svo greip lögreglan í mig aftan frá.“

Hann segist ekki hafa verið færður í handjárn en þó bjóst hann alls ekki við því að vera handtekinn og hljóta sekt vegna mótmælanna. Hann var í haldi lögreglu í tíu tíma að eigin sögn og fullyrti að hann hafði fengið tilskilin leyfi fyrir mótmælunum. Hann hyggst fara með málið lengra.

Piers Corbyn er nokkuð þekktur í heimalandinu, en hann veðurfræðingur að mennt. Þekktastur er hann þó fyrir samsæriskenningar sínar og hefur hann meðal annars dreift slíkum um 5G samskiptatækni.

Hann hefur til að mynda sagt WHO hafa rangt fyrir sér um að 5G komi ekki að útbreiðslu kórónuveirunnar. Meðal annars vegna þess að hátíðnibylgjur gætu verið að skaða lungu fólks. Hann sagðist skilja reiði fólks og skemmdarverk á símamöstrum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×