Erlent

Tólf ára börn og eldri beri líka grímur

Samúel Karl Ólason skrifar
Grímur hafa verið mikið milli tannana á fólki undanfarið.
Grímur hafa verið mikið milli tannana á fólki undanfarið. Vísir/Getty

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur uppfært tilmælum varðandi börn og grímur. Nú segir stofnunin að börn sem eru tólf ára og eldri eigi að bera grímur við sömu skilyrði og fullorðið fólk. Það er, við aðstæður þar sem ekki er hægt að tryggja fjarlægð á milli einstaklinga. Á vef WHO er talað um einn metra en hér á Íslandi er reglan tveir metrar, eins og nafn hennar gefur til kynna.

Í skólum hér á landi er fjarlægðarviðmiðið hins vegar einn metri.

Breytingin var gerð í gær.

Í tilmælunum segir að ákvarðanir varðandi grímuburð barna á aldrinum sex til ellefu verði að taka mið af aðstæðum. Þar sé um að ræða útbreiðslu Covid-19 á viðkomandi svæði og hvort barnið geti mögulega smitað aðila í hættuhópum.

Samkvæmt upplýsingum á covid.is er óalgengt að börn undir 18 ára aldri smitist af kórónuveirunni. Þannig hafi aðeins tvö börn á aldrinum 0 til 5 ára verið sett í einangrun vegna smits í þessari bylgju faraldursins.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur að sama skapi sagt að rannsóknir á dreifingu sýkingarinnar hér innanlands sýni fram á að börn séu ekki aðeins ólíklegri til að sýkjast, heldur jafnframt ólíklegri til að smita út frá sér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×