Fótbolti

Fjórtán daga bann í Slóvakíu ógnar samskonar umspilsleik og á að spilast í Laugardalnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Slóvakísku landsliðsmennirnir Martin Skrtel, Michal Sulla, Adam Nemec og Ondrej Duda.
Slóvakísku landsliðsmennirnir Martin Skrtel, Michal Sulla, Adam Nemec og Ondrej Duda. Getty/Pakawich Damrongkiattisak
Slóvakar hafa ákveðið að banna alla íþróttaviðburði næstu fjórtán daga á meðan berst við útbreiðslu kórónuveirunnar í landinu.

Þetta er samskonar bann og var sett á Ítalíu en Ítalir eru reyndar með mánaðarbann. Ólíkt Slóvakíu þá eru Ítalir ekki á leiðinni í umspil um sæti á EM eins og við Íslendingar. Ítalar eru búnir að tryggja sér sæti á EM.

Bannið í Slóvakíu ógnar aftur á móti umspilsleik þjóðarinnar á móti Írlandi sem á að fara fram sama dag og leikur Íslands og Rúmeníu á Laugardalsvellinum.





Leikur Slóvakíu og Írlands á að fara fram í Bratislava 26. mars eða eftir sextán daga. Það þýðir að bannið verður enn í gildi þremur dögum fyrir leikinn.

Peter Pellegrini, forsætisráðherra Slóvakíu, tilkynnti um bannið í gær en þar snýr ekki bara að íþróttaviðburðum heldur öllum viðburðum þar sem fólk kemur saman og öllum viðburðum á vegum stjórnvalda.

Þetta eru mjög hörð viðbrögð því „aðeins“ hafa fundist sjö Covid-19 veirusmit í landinu.

Slóvakíska knattspyrnusambandið hafði sagt áður að leikurinn við Írland færi hugsanlega fram með enga áhorfendur í stúkunni en sambandið ætlar að endurgreiða miðana verði það niðurstaðan.

Í kringum 2200 Slóvakar hafa keypt miða á leikinn en það er langt frá því að vera uppselt eins og á leik Íslands og Rúmeníu á Laugardalsvellinum.

Eins og staðan er núna mun leikurinn í Bratislava fara fram en eins og með allt annað á þessum óvissutímum er það í stöðugri endurskoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×