Erlent

Loka Louvre-safninu vegna ótta við kórónuveirusmit

Andri Eysteinsson skrifar
Louvre-safnið er eitt fjölsóttasta safn heims.
Louvre-safnið er eitt fjölsóttasta safn heims. Getty/Chesnot

Einu þekktasta og fjölsóttasta listasafni heims, Louvresafninu í París, var í dag lokað eftir að ríkisstjórn Frakklands tók ákvörðun um að banna fjöldasamkomur innandyra af ótta við útbreiðslu kórónuveirunnar. Sumt starfsfólk safnsins neitaði að vinna vegna ótta við smit og kallaði því eftir fundi með yfirmönnum.

„Við vorum áhyggjufull því gestir okkar koma alls staðar að úr heiminum,“ hefur AP eftir trúnaðarmanni starfsfólks safnsins Andre Sacristin.

Í fyrstu var gefin út yfirlýsing þess efnis að opnun safnsins í dag yrði frestað vegna starfsmannafundar. Mikill fjöldi fólks beið hins vegar fyrir utan safnið tímunum saman.

Sacristin segir að starfsfólk safnsins hræðist smit vegna þeirra þúsunda sem sækja safnið heim á degi hverjum. Þá hafa starfsmenn listasafna á Norður-Ítalíu verið í Louvre safninu undanfarna daga þar sem verið er að undirbúa flutning verka eftir Leonardo Da Vinci til Ítalíu eftir að hafa verið tímabundið til sýnis í París. Stór hluti Norður-Ítalíu hefur verið skilgreindur sem hættusvæði vegna möguleika á smiti.

Annar fundur starfsmanna Louvre er fyrirhugaður á mánudag.

„Til verndar starfsfólki ættu gestir að gangast undir rannsókn áður en þeir koma inn á safnið, ef veiran greinist ætti safnið að loka,“ sagði Sacristin og bætti við að starfsmenn væru ósáttir við að þeim hafi eingöngu verið boðið handspritt til varnar smiti.


Tengdar fréttir

Frakkar banna stórar samkomur og mæla gegn kossaflensi

Vegna mikillar fjölgunar kórónuveirusmita í Frakklandi hafa þarlend yfirvöld gripið til þess ráðs að banna stórar samkomur fólks, innandyra. Þá er mælt með því að Frakkar hætti að heilsast með kossum á kinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×