Fótbolti

Ísak og Eggert í undanúrslit í Danmörku

Sindri Sverrisson skrifar
Ísak Óli Ólafsson er leikmaður SönderjyskE í Danmörku.
Ísak Óli Ólafsson er leikmaður SönderjyskE í Danmörku. mynd/sonderjyske

U21-landsliðsmaðurinn Ísak Óli Ólafsson fékk tækifæri í byrjunarliði SönderjyskE í kvöld þegar liðið vann 2-1 sigur gegn Randers í 8-liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í fótbolta.

Ísak lék allan leikinn í vörn SönderjyskE sem lenti undir snemma leiks. Liðið náði að jafna metin á 67. mínútu og sigurmarkið kom svo á 89. mínútu, skömmu eftir að Eggert Gunnþór Jónsson kom inn á sem varamaður hjá SönderjyskE.

Ísak, sem er aðeins 19 ára, gekk til liðs við SönderjyskE frá Keflavík í fyrrasumar. Hann hefur fengið tækifæri í einum deildarleik og kom þá inn á sem varamaður í sex mínútur, gegn AGF í nóvember, en einnig spilað í bikarkeppninni.

Ísak er leikmaður U21-landsliðsins og á að baki 6 leiki fyrir liðið og samtals 22 leiki fyrir yngri landslið Íslands. Hann náði þrátt fyrir ungan aldur að leika þrjár leiktíðir með Keflavík áður en hann fór til Danmerkur.

Áður höfðu AGF og AaB komist í undanúrslit bikarkeppninnar en í kvöld mætast Horsens og Silkeborg í síðasta leik 8-liða úrslitanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×