Frönsk stjórnvöld hafa bannað samkomur þar sem fleiri en þúsund manns eða fleiri koma saman. Þetta tilkynnti Olivier Véran heilbrigðisráðherra landsins í dag. Stjórnvöld höfðu áður bannað samkomur þar sem fimm þúsund eða fleiri komu saman innandyra.
Tilkynningin kom eftir neyðarfund stjórnvalda í dag. Véran sagði viðvörunarstig landsins enn vera á öðru stigi, það er að ríkisstjórnin einblínir á það að vernda borgarana á meðan brugðist er við með viðeigandi aðgerðum. Fjöldi smita í Frakklandi er nú 1.126 og hafa nítján látist.
Bannið tekur líkt og áður sagði til samkoma þar sem yfir þúsund manns koma saman. Þó verða undanþágur veittar fyrir viðburði sem teljast mikilvægir þjóðlífinu, til að mynda mótmæli, og munu stjórnvöld gefa út lista yfir undanþágurnar.