Innlent

Skoða upptöku „veðurviðvarana“ í baráttu við veiruna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá upplýsingafundi dagsins.
Frá upplýsingafundi dagsins. vísir/sigurjón

Meðal þess sem horft er til í baráttu landsmanna við veiruna er að taka upp nýtt viðvörunarkerfi, ekki ósvipað því og þekkist í veðurfréttum. Ástand faraldursins í landinu yrði þannig sett fram sem lituð viðvörun og sér Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn fyrir sér að með þessu væri hægt að gefa út veiruviðvaranir á afmarkaða landshluta.

Á upplýsingafundi dagsins sagði Víðir að kallað hafi verið eftir því að skapa fyrirsjáanleika í viðbrögðum hins opinbera við kórónuveirufaldrinum. Það myndi gagnast mörgum hópum vel, til að mynda atvinnulífinu, viðburðahöldurum og skólum svo einhver séu nefnd. 

Í því samhengi nefndi Víðir að til skoðunar sé að útbúa stigskiptingu ástandsins á hverjum tíma. Horft væri til þess að taka upp litakóða, innan hvers þess stigs sem almannavarnir reiða sig á nú þegar; eins og hættustigs og óvissustigs.

Þessi litakóði yrði þannig svipaður og þekkist í veðrinu. Það myndi gefa almannavörnum færi á að gefa út litakóðaðar viðvaranir, jafnvel eftir landshlutum, út frá ástandinu á hverjum tíma. Þannig geti fólk, án þess að þörf sé á því að breyta þeim reglum og viðurlögum sem eru í gildi, hagað eigin aðgerðum eftir því hvaða viðvörun gildir þá stundina. 

Víðir segir að þess konar kerfi væri ætlað að tvinna saman kröfur um sóttvarnir og óskir um að lifa í opnu og frjálsu samfélagi. Til þess að svo geti orðið þurfi jafnframt að huga að upplýsingaflæðinu og sjá til þess að allt sé skýrt og einfalt. Það sé til þess fallið að draga úr upplýsingaóreiðu.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×