Erlent

Hlutfall ungs fólks meðal smitaðra eykst sífellt

Samúel Karl Ólason skrifar
Ungt fólk er að snúa aftur til skóla um þessi misseri.
Ungt fólk er að snúa aftur til skóla um þessi misseri. AP/Julia Wall

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin varaði við því í gær að ungt fólk væri nú að dreifa Covid-19 víða um heim. Fjöldi ungs fólks hafi smitast um heim allan en þau sýni heilt yfir minni einkenni en eldra fólk og eru því líklegri til að dreifa veirunni án þess að vera meðvituð um að þau beri hana.

Sérfræðingar óttast að ástandið muni versna frekar með opnun skóla um þessi misseri.

Takeshi Kasai, yfirmaður WHO fyrir vesturhluta Kyrrahafsins, sagði á blaðamannafundi í gær að heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar sem veldur Covid-19, væri að taka breytingum.

„Fólk á þrítugs-, fertugs-, og fimmtugsaldri er að dreifa veirunni í meira magni,“ sagði Kasai á fundinum, samkvæmt frétt Washington Post. Til marks um það benti hann á tölur frá Ástralíu og Filippseyjum þar sem fólk undir fertugu er rúmlega helmingur þeirra sem hafa smitast. Í Japan er hlutfallið 65 prósent.

Þetta er þveröfugt við undanfarna mánuði þar sem dreifing Covid-19 hefur að mestu verið meðal eldra fólks. Þessi breyting byrjaði að vera ljós í síðasta mánuði. Fyrr í þessum mánuði birti WHO greiningu á sex milljónum smitaðra sem sýndi að á milli 24. febrúar og 12. júlí jókst hlutfall fólks á aldrinum 15 til 24 ára úr 4,5 prósentum í fimmtán prósent.

Sjá einnig: Breytt hegðun og ungt fólk að baki fjölgun smita

Kasai sagði að þjóðarleiðtogar og ríkisstjórnir víða um heim þyrftu að reyna að tryggja að þessi dreifing nái ekki til viðkvæmra aðila eins og eldri borgara.

Rúmlega 22 milljónir manna hafa smitast af Covid-19, svo vitað sé, og rúmlega 780 þúsund hafa dáið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×