Erlent

Spreyjuðu hundrað tonnum af sótt­hreinsi­efni yfir borgina að næturlagi

Eiður Þór Árnason skrifar

Í gær var hafist handa við að sótthreinsa stóran hluta nokkurra borga í Hubei-héraði í Kína, þar á meðal Wuhan. Um er að ræða forvarnaraðgerð sem er ætlað að hemja frekari útbreiðslu Wuhan-kórónaveirunnar.

Um helgina bárust fregnir af því að kínversk stjórnvöld ætli sér að verja tíu milljörðum Bandaríkjadala, eða hátt í 1.300 milljörðum íslenskra króna, í baráttu gegn veirunni.

Greint hefur frá því í kínverskum fjölmiðlum að frá og með gærdeginum verði ráðist í allsherjar sótthreinsiaðgerðir í Wuhan tvisvar á dag. Verður sjónum þá sérstaklega beint að spítölum, mörkuðum, íbúðahverfum, almenningsalernum og annarri hreinlætisaðstöðu.

Sjá einnig: Tvö ný sýni vegna Wuhan-veirunnar reyndust neikvæð

AP-fréttastofan hefur það eftir kínverska ríkissjónvarpinu að aðgerðirnar muni ná til yfir þrjú hundruð íbúðahverfa í nágrannaborginni Jingzhou og þrjú þúsund hektara almenningssvæðis.

Þá spreyjuðu fjórir bílar meira en hundrað tonnum af sótthreinsiefni að næturlagi yfir aðalgötur og almenningssvæði í borginni Shiyan.

Wuhan-kórónaveiran er ný tegund kórónaveiru og ber formlega heitið 2019-nCoV eða Nýja kórónaveiran.

Veiran sem er talin eiga upptök sín á markaði í Wuhan hefur dreifst til hátt í þrjátíu landa og hafa yfir fjörutíu þúsund manns smitast af veirunni, langflestir á meginlandi Kína.

Sjá einnig: Faraldurinn getur geisað mánuðum saman

Rétt yfir níu hundruð hafa nú látist vegna veirunnar, eins nær allir á meginlandi Kína. Sérfræðingar hafa þó bent á að dánarhlutfall fólks sem sýkist af veirunni sé svipað og þeirra sem fái hina árlegu inflúensu og jafnvel lægra.

Samkvæmt áhættumati fyrir veiruna sem framkvæmt er af Sóttvarnastofnun Evrópusambandsins er hættan á slæmum faraldri í löndum Evrópu talin lítil.


Tengdar fréttir

Breskur maður greindur með Wu­han-veiruna á Mallor­ca

Breskur maður hefur verið greindur með Wuhan-kórónaveiruna á Mallorca á Spáni. Hann og fjölskylda hans voru skoðuð af lækni á Mallorca á föstudag eftir að í ljós kom að fjölskyldan hafði verið í samskiptum við Breta í Frakklandi sem greindust með veiruna.

Fengu loks að yfir­gefa skipið eftir fjóra daga

Um 3.600 farþegum og áhafnarmeðlimum skemmtiferðaskipsins World Dream var í dag loks leyft að fara frá borði eftir að hafa verið í fjögurra daga löngu sóttkví fyrir utan strendur Hong Kong.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×