Handbolti

Ýmir byrjaði á spennuleik í Þýskalandi | Oddur með 9 mörk

Sindri Sverrisson skrifar
Ýmir Örn Gíslason er mættur í slaginn í Þýskalandi.
Ýmir Örn Gíslason er mættur í slaginn í Þýskalandi. mynd/stöð2sport

Ýmir Örn Gíslason þreytti í kvöld frumraun sína í þýsku 1. deildinni í handbolta. Oddur Gretarsson átti stórleik en það dugði skammt.

Ýmir gekk í raðir Rhein-Neckar Löwen frá Val á dögunum og var í liðinu þegar það gerði 27-27 jafntefli við Wetzlar á útivelli í kvöld. Ýmir skoraði úr eina skoti sínu í leiknum og Alexander Petersson skoraði tvö en Viggó Kristjánsson komst ekki á blað fyrir heimamenn.

Löwen, sem leikur undir stjórn Kristjáns Andréssonar, er í 6. sæti deildarinnar með 29 stig, fjórum stigum fyrir ofan Wetzlar og sjö stigum á eftir toppliði Kiel.

Flensburg er tveimur stigum á eftir Kiel eftir sigur á Nordhorn í kvöld en Kiel á hins vegar leik til góða.

Oddur Gretarsson skoraði úr öllum níu skotum sínum fyrir Balingen, þar af þrjú úr vítum, þegar liðið tapaði 32-27 fyrir Erlangen á útivelli. Balingen er aðeins þremur stigum frá fallsæti en Erlangen komst með sigrinum í örugga fjarlægð frá fallsvæðinu.

Elvar Ásgeirsson var ekki á meðal markaskorara Stuttgart sem vann sterkan sigur gegn Melsungen á útivelli, 26-21. Stuttgart komst þar með upp fyrir Balingen á markatölu en er sömuleiðis þremur stigum frá fallsæti.

Arnór Þór Gunnarsson skoraði eitt marka Bergischer sem tapaði 28-22 fyrir Göppingen á útivelli. Ragnar Jóhannsson var ekki á meðal markaskorara Bergischer sem er í 13. sæti, fimm stigum frá fallsæti.

Úrslit kvöldsins:

Flensburg - Nordhorn 29-27

Göppingen - Bergischer 28-22

Erlangen - Balingen 32-27

Wetzlar - Rhein-Neckar Löwen 27-27

Melsungen - Stuttgart 21-26




Fleiri fréttir

Sjá meira


×