Sport

Sara: Finnst ennþá eins og þetta sé of gott til að vera satt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir er á mikilli sigurgöngu en heldur hún áfram í sólinni í Miami.
Sara Sigmundsdóttir er á mikilli sigurgöngu en heldur hún áfram í sólinni í Miami. Mynd/Instagram/sarasigmunds

Margir bíða spenntir eftir því hvort Sara Sigmundsdóttir geti haldið sigurgöngu sinni áfram á stórmótunum í CrossFit. Sara er nú komin til Flórída þar sem hún keppir á Wodapalooza CrossFit mótinu í Miami.

Sara Sigmundsdóttir hefur unnið glæsilegra sigra á síðustu tveimur CrossFit mótunum sínum, bæði í Dublin og Dúbaí auk þess að vinna „The Open“ annað árið í röð. Hún er því fyrir löngu búin að tryggja sér farseðilinn á heimsleikana og það í raun mörgum sinnum.

Sara má hins vegar ekki slaka neitt á og hún ætlar að halda áfram að prófa sig gegn þeim bestu. Sara tók því þá ákvörðun að leggja sigurgönguna undir á hinu sterka Wodapalooza CrossFit móti í Miami sem hefst eftir tæpa viku.





Fólkið á Morning Chalk Up kannaði stöðuna á okkar konu, fór yfir byrjun ársins og hvert sé framhaldið nú þegar Sara hefur tæpa sjö mánuði til að stilla sig inn á heimsleikana í ágúst.

Fyrsta spurningin hjá Tommy Marquez frá Morning Chalk Up var að kanna hvað hafi verið að gerast hjá Söru síðan hún vann stórmótið í Dúbaí.

„Ég tók þátt í litlu móti á Ítalíu og fór síðan í smá frí. Ég ætlaði að byrja að æfa aftur en veiktist. Ég var því frá æfingum í eina viku til viðbótar. Ég er því að komast aftur í gang núna,“ sagði Sara.

Sara er atvinnumaður í CrossFit en hvernig líkar henni þessi lífsstíll. „Mér finnst ennþá eins og þetta sé of gott til að vera satt. Ég fæ að gera það sem ég elska á hverjum degi og ég fæ að hitta nýtt fólk á hverjum degi,“ sagði Sara.

Hvernig lítur framhaldið út nú þegar það eru tæpir sjö mánuðir í heimsleikana?

„Ég er á mjög góðu skriði núna og á réttri leið. Ég ætla að halda mér á þessari réttu leið. Það er lykilatriði hjá mér að ég hafi gaman af þessu. Svo framarlega sem ég hef gaman af því sem ég er að gera þá veit ég að ég mun ná árangri,“ sagði Sara.

Sara ræðir einnig upplifun sína af því að þjálfa CrossFit lið á „Freakest Challenge“ mótinu í Barcelona, hvernig hún slakar á, næstu mót hjá henni og hvað hún er að vinna í æfingasalnum og utan hans. Það má sjá þetta viðtal hér fyrir neðan.

Sara er komin út til Flórída en Wodapalooza CrossFit mótið hefst fimmtudaginn 20. febrúar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×