Körfubolti

Arnar: Ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að ná í fleiri titla

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnar hefur gert Stjörnuna að bikarmeisturum á báðum tímabilum sínum með liðið.
Arnar hefur gert Stjörnuna að bikarmeisturum á báðum tímabilum sínum með liðið. vísir/daníel

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, leyfði sér að brosa eftir að hans menn urðu bikarmeistarar eftir sigur á Grindavík í dag.

„Ég er glaður. Það er alltaf gaman að vinna,“ sagði Arnar við Vísi.

Fyrri hálfleikur var jafn en í þeim seinni sýndu Stjörnumenn styrk sinn. Þeir náðu góðu áhlaupi undir lok 3. leikhluta og létu forystuna aldrei af hendi.

„Grindvíkingar gerðu mjög vel. Vörnin hjá þeim var mjög þétt og þeir skoruðu auðveldlega á okkur í byrjun fyrri og seinni hálfleiks,“ sagði Arnar.

„Við náðum að binda vörnina saman um miðjan 3. leikhluta og það skóp sigurinn.“

Arnar kvaðst ánægður með liðsheild Stjörnunnar í dag.

„Mjög ánægður. Það voru margir sem komu sterkir inn eins og gegn Tindastóli á miðvikudaginn. Þegar það er þannig erum við góðir,“ sagði Arnar.

En eiga eftir að koma fleiri titlar í Garðabæinn á þessu tímabili?

„Ég get ekkert svarað því en við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að ná í fleiri titla,“ sagði Arnar að endingu.


Tengdar fréttir

Hlynur: Munaði um breiddina

Fyrirliði Stjörnunnar sagði breiddin hafi skipt sköpum gegn Grindavík í úrslitaleik Geysisbikars karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×