Sport

Sara er búin að ákveða það hvar hún keppir næst

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Heldur Sara Sigmundsdóttir sigurgöngu sinni áfram á mótinu í Miami?
Heldur Sara Sigmundsdóttir sigurgöngu sinni áfram á mótinu í Miami? Mynd/Instagram/sarasigmunds

Íslenska CrossFit stjarnan Sara Sigmundsdóttir hefur verið á mikilli sigurgöngu á síðustu mánuðum og nú hefur hún ákveðið hvar leið hennar liggur næst.

Sara tilkynnti það á Instagram síðu sinni að hún ætli að keppa næst á Flórída í lok febrúar.

Þar er um að ræða Wodapalooza CrossFit mótið í Miami á Flórída sem fer fram 20. til 23. febrúar næstkomandi.

Þar fær okkar heldur betur samkeppni um sigurinn því heimsmeistari þriggja síðustu ára, Ástralinn Tia-Clair Toomey er meðal keppenda á mótinu og þar eru líka Kari Pearce og Brooke Wells.









„Næsta keppni hjá mér er nú bókuð. Losna úr öllu þessu myrkri, roki og kulda og kemst í Flórída sólina eftir nokkrar vikur. Get ekki beðið eftir því að keppa á Wodapalooza annað árið í röð,“ skrifaði Sara.

Sara keppti líka á Wodapalooza mótinu í fyrra og varð þá í þriðja sætinu á eftir þeim Tiu-Clair Toomey frá Ástralíu og Kari Pearce frá Bandaríkjunum.

Ísland hefur átt konu á verðlaunapalli Wodapalooza mótsins undanfarin tvö ár því Katrín Tanja Davíðsdóttir vann þetta mót árið 2018.

Forráðamenn Wodapalooza CrossFit mótsins eru ánægðir með komu Söru en á nýrri auglýsingu fyrir mótið þá er Sara að sjálfsögðu ein af stóru stjörnum mótsins eins og sjá má hér fyrir neðan.






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×