Keir Starmer, talsmaður Verkamannaflokksins í Brexit-málum, mælist með mest fylgi í fyrstu skoðanakönnuninni um mögulega arftaka Jeremys Corbyn sem leiðtoga flokksins. Búist er við því að leiðtogakjör Verkamannaflokksins fari fram í mars eftir að Corbyn lýsti því yfir að hann ætlaði að stíga til hliðar eftir í kjölfar kosninga þar sem flokkurinn beið skipbrot.
Könnun The Guardian á meðal flokksfélaga bendir til þess að Starmer fengi 61% atkvæða yrði kosið á milli hans og Rebeccu Long-Bailey, talskonu flokksins í málefnum atvinnulífsins. Long-Bailey er sögð njóta stuðnings verkalýðsfélaga og vinstri arms flokksins sem var bakland Corbyn.
Starmer hefur ekki lýst yfir framboði en Reuters-fréttastofan segir að búist sé við því að það muni hann gera á næstu vikum. Hann er 57 ára gamall þingmaður norðurhluta London og var fremst í flokki þeirra sem vildu að flokkurinn styddi aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu.
