Innlent

Skoða að lýsa yfir neyðarstigi í einstaka umdæmum

Birgir Olgeirsson skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn. 
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn.  Vísir/Vilhelm

Til greina kemur að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna í einstaka lögregluumdæmum vegna kórónuveirufaraldursins. Slíkt hefur verið til umræðu innan almannavarna að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns.

112 eru með veiruna hér á landi og 946 í sóttkví. Af þeim eru lang flestir á höfuðborgarsvæðinu smitaðir 86 talsins og 647 í sóttkví. Í Vestmannaeyjum eru 75 í sóttkví og einn smitaður.

Í umræðu um að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna hefur verið rætt að setja það á í einstaka lögregluumdæmum.

Ef neyðarstig yrði virkjað  fyrir allt landið hefði það mikil áhrif á starfsemi þeirra sem reka mikilvæga innviði.

Heimild er í lögreglulögum að lýsa yfir neyðarstigi í einstaka lögregluumdæmum.

„Við erum að meta þetta dag frá degi og verður fundað með öllum lögreglustjórum á morgun. Þar verður lagt mat á þetta út frá umdæmunum,“ segir Víðir Reynisson.

Spurður hvort til greina komi að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna hjá embættum lögreglustjóranna á höfuðborgarsvæðinu og í Vestmannaeyjum segir Víðir stöðuna vissulega slæma þar.

„Auðvitað erum við að skoða þessa staði. En það eru líka Vestfirðir og Norðurland og aðrir staðir. En það þarf að hafa mikil áhrif á samfélagið áður en við förum að grípa til slíkra aðgerða.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×