Innlent

Þrjú innanlandssmit og tvö virk smit á landamærunum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Kórónuveiran á bráðamótökunni í Fossvogi
Kórónuveiran á bráðamótökunni í Fossvogi

Þrír greindust með veiruna innanlands síðasta sólarhringinn, allir á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Þá greindust tveir með virk smit við landamærin og tveir til viðbótar bíða eftir mótefnamælingu. 946 eru nú í sóttkví á landinu og fjölgar þar nokkuð milli daga. Einn er á sjúkrahúsi vegna veirunnar og liggur á gjörgæslu. Þetta kemur fram í nýuppfærðum tölum á Covid.is.

Alls voru 2.430 sýni tekin við landamærin í gær og 581 sýni greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Þá voru engin sýni tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu. Alls eru 112 í einangrun með veiruna á landinu. Meirihluti þeirra sem greindust með nýsmit síðasta sólarhringinn voru í sóttkví. 

Enn eru virk smit í öllum landshlutum, langflest á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru einnig langflestir, eða 647, í sóttkví. Þar á eftir kemur Suðurland, þar sem 104 eru í sóttkví.

Nýgengi innanlandssmita, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú orðið 27,0.

Boðað hefur verið til upplýsingafundar vegna veirunnar klukkan 14, þar sem Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Alma Möller landlæknir. Sýnt verður beint frá fundinum hér á Vísi, sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi og hann jafnframt sendur út á Bylgjunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×