Sport

Katrín Tanja stökk út í sjó úr mikilli hæð: „Passaðu þig á hákörlunum“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir sést hér stökkva fram af vitanum og út í sjó.
Katrín Tanja Davíðsdóttir sést hér stökkva fram af vitanum og út í sjó. Skjámynd/Instagram

Þjálfari íslensku CrossFit konunnar Katrínar Tönju Davíðsdóttur var að sjálfsögðu samur við sig þegar hún æfði sjósund á dögunum. Hann lét hana stökkva út í sjó fram af vita úr margra metra hæð og lék sér af því að búa til öldur þegar til að trufla hana í sjósundinu.

Katrin Tanja hefur verið við æfingar við Cape Cod, Þorskhöfða, í Massachusetts fylki. Hún nýtur nú síðustu dagana þar og var óhrædd við að reyna sig við eitthvað nýtt og sem er heldur betur út fyrir þægindarammann.

Katrín Tanja Davíðsdóttir æfði sjósund við Þorskhöfða en hún og æfingafélagi hennar þurftu áður að reyna sig við stökk sem er ekki alveg fyrir lofthrædda.

Katrín Tanja og æfingafélagi hennar, Chandler Smith, klifruðu upp á vita sem stendur einn og yfirgefinn út í sjó fyrir utan strönd Cape Cod.

Þau tóku sig síðan til og stukku af honum og út í sjó en þetta var stökk úr þó nokkurri hæð eins og sjá má í myndbandinu sem Katrín Tanja setti inn á Instagram síðu sína.

„Þetta leit út fyrir að vera miklu hærra þegar ég var þarna uppi,“ skrifaði Katrín Tanja á Instagram.

„Ég át eftir að sakna Cape lífsins svo mikið. Síðustu dagarnir til að drekka í sig sólina og þessa góðu orku,“ skrifaði Katrín Tanja.

Fylgjendur okkar konu á Instagram höfðu margir áhyggjur af þeim kvikindum sem leyndust sjónum. „Passaðu þig á hákörlunum,“ skrifaði einn.

Ben Bergeron, þjálfari Katrínar Tönju, hélt síðan uppi fyrri iðju sinni við að gera æfingarnar enn erfiðari fyrir Katrínu Tönju.

Þegar hún var að synd sjósundið þá lék hann sér að því að auka ölduganginn með bátnum sínum þannig að sundið varð enn erfiðara. Það var ekkert hægt að kvarta yfir öldugangi þennan daginn en Ben Bergeron var fljótur að bæta úr því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×