Innlent

Veikindi Víðis reyndust ekki vera Covid

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Víðir hefur stýrt tugum upplýsingafunda á síðustu mánuðum. Hann var hins vegar fjarverandi í dag vegna veikinda.
Víðir hefur stýrt tugum upplýsingafunda á síðustu mánuðum. Hann var hins vegar fjarverandi í dag vegna veikinda. vísir/vilhelm

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sótti ekki upplýsingafund almannavarna í dag vegna veikinda. Þrátt fyrir einkenni sem bentu til kórónuveirusmits sýndi sýnataka fram á að hann sé ekki covid-smitaður.

Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum tilkynnti Víðir samstarfsmönnum sínum í morgun að hann hafi vaknað veikur. Hann hafi fundið til hálssærinda og höfuðverkjar og við það hafi kviknað hjá honum grunur um kórónuveirusmit. 

Hann hafi af þessum sökum ákveðið að halda sig heima í dag og stýrði Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, því upplýsingafundi dagsins.

Til þess að fá úr því skorið hvort að um kórónuveirusmit væri að ræða segja almannavarnir að Víðir hafi undirgengist skimun í morgun. Niðurstöðurnar, sem bárust nú síðdegis, bera hins vegar með sér að veikindi Víðis séu ekki covid-tengd. 

Því þarf samstarfsfólk hans ekki að fara í sóttkví eða sýnatöku og mun heilsa hans í fyrramálið ráða því hvort hann taki aftur við fundarstjórn á morgun - verði boðað til 97. upplýsingafundarins.


Tengdar fréttir

Svona var 96. upplýsingafundur almannavarna

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis boðuðu til upplýsingafundar fyrir fjölmiðla klukkan 14 í dag í húsakynnum landlæknisembættisins að Katrínartúni í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×