Innlent

Góðs viti að smitum fjölgi ekki hraðar

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Már Kristjánsson, yfirlæknir á Landspítalanum.
Már Kristjánsson, yfirlæknir á Landspítalanum. Vísir/vilhelm

Níu innanlandssmit kórónuveiru greindust hér á landi í gær og fjölgaði þeim nokkuð milli daga. Yfirlæknir segir góðs viti að smitum fjölgi ekki hraðar en það skýrist á næstu dögum hvort gripið hafi verið til aðgerða nægilega snemma til að hamla stórri bylgju.

Nú er alls 91 í einangrun með veiruna á landinu. Innanlandssmitum fjölgaði því nokkuð milli daga en í fyrradag voru þau þrjú. Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans segir hægan stíganda á faraldrinum enn sem komið er.

„Það er út af fyrir sig áhyggjuefni að þetta sé hægt og mallandi - en það er þó góðs viti að það skuli ekki vera meira. Stóra spurningin er hvort þessar ráðstafanir sem sóttvarnayfirvöld hafa þó gripið til séu nægjanlanlega tímanlegar til þess að draga úr stórri bylgju,“ segir Már.

Lykillinn að árangri í allra höndum

Tíminn muni leiða það í ljós. Ef aðgerðirnar voru tímanlegar muni faraldurinn ekki fara á flug, ef ekki þá muni smituðum fjölga. „Það fer bara eftir því hvernig fólk hegðar sér. Ef það tekst að fá fólk til að sinna einstaklingsbundnum sóttvörnum, eins og búið er að klifa á, þá held ég að það sé lykillinn að árangri.“

Hann telur ekki ástæðu til að herða almennt sóttvarnarráðstafanir í samfélaginu að svo stöddu.

„Það er tiltölulega lítið smit úti í samfélaginu. Það er það sem skimanir hafa sýnt,“ segir Már.

Sá sem hefur verið inniliggjandi á Landspítalanum á liðnum dögum vegna kórónuveirunnar hefur nú verið útskrifaður. Að sögn Más er þó beðið niðurstöðu varðandi mögulegt smit hjá öðrum.

„Það eru tveir inniliggjandi núna, grunaðir um að vera með Covid-19. Það hefur ekki verið staðfest ennþá,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á Landspítalanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×