Innlent

Allir þurfi að huga að smitvörnum

Sylvía Hall skrifar
Alma Möller á upplýsingafundi í dag.
Alma Möller á upplýsingafundi í dag. Almannavarnir

Almannavarnir hafa fengið margar ábendingar um að fólk virði ekki tveggja metra reglu á opinberum stöðum að sögn Ölmu D. Möller landlæknis. Hún segir mikilvægt að fólk hugi sjálft að smitvörnum og reyni eftir bestu getu að viðhalda fjarlægðarmörkum, enda smitist kórónuveiran fyrst og fremst með dropasmiti.

Þetta kom fram í máli Ölmu á upplýsingafundi almannavarna í dag. Rifjaði hún upp helstu smitleiðir veirunnar og ítrekaði mikilvægi einstaklingsbundinna smitvarna.

Leiðbeiningar frá landlækni.Embætti landlæknis

Líkt og áður sagði er dropasmit algengasta smitleiðin en veiran getur einnig borist milli manna af menguðum flötum. Veiran getur verið virk á sléttum plast- og stálflötum í allt að þrjá daga og því séu grunnstoðir smitvarna að þvo sér oft og vel um hendur með sápu. Tuttugu sekúndna handþvottur og spritt þess á milli geti skipt sköpum.

Þá sé mikilvægt að fólk forðist að snerta andlit og takast í hendur. Fólk þurfi að bíða með að faðma sína nánustu í bili á meðan veiran er enn í samfélaginu.

Alma hrósaði heilbrigðisstarfsfólki fyrir góð viðbrögð við umfangsmeiri skimun og áréttaði mikilvægi þess að fólk hefði samband við heilsugæslu ef það færi að finna fyrir einkennum. Fólk með öndunarfæraeinkenni ætti að halda sig heima.


Tengdar fréttir

Skima allt að sex hundruð Skaga­menn

Skagamenn hafa sýnt skimun Íslenskrar erfðagreiningar á Akranesi mikinn áhuga og er búist við því að allt að sex hundruð fari í skimun í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×