Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis boða til upplýsingafundar vegna faraldurs kórónuveiru klukkan 14 í húsakynnum landlæknisembættisins við Katrínartún. Fundurinn verður í beinni útsendingu hér á Vísi, Stöð 2 Vísi og á Bylgjunni.
Hið svokallaða þríeyki, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma D. Möller, landlæknir, koma öll þrjú saman á ný eftir talsvert hlé. Með þeim á fundinum verður Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Um margt verður að ræða á upplýsingafundinum. Hertar aðgerðir vegna fjölgunar nýsmitaðra tóku gildi á hádegi og þá greindust ellefu innanlandssmit hér á landi síðasta sólarhringinn. Þar af voru aðeins tveir í sóttkví.
Líkt og áður segir má fylgjast með fundinum í beinni útsendingu í spilaranum hér að ofan og á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísir. Þá verður hann í beinni útsendingu á Bylgjunni og í beinni textalýsingu í vaktinni hér fyrir neðan.
Uppfært: Hér að neðan má sjá upptöku af fundinum í heild sinni.