Innlent

Ellefu innanlandssmit til viðbótar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skimað fyrir kórónuveirunni.
Skimað fyrir kórónuveirunni. Vísir/vilhelm

Ellefu ný innanlandssmit kórónuveirunnar greindust síðasta sólarhringinn og eru alls 50 nú í einangrun á landinu, samkvæmt nýuppfærðum tölum á Covid.is. Þá greindust þrír með veiruna á landamærunum í gær; einn er með virkt smit, einn með mótefni og einn bíður eftir niðurstöðu úr mótefnamælingu.

287 eru í sóttkví og fjölgar um 72 síðan í gær. Enn er einn á sjúkrahúsi og hefur því enginn verið lagður inn með Covid síðasta sólarhringinn, samkvæmt tölum á Covid.is.

Þegar hafði verið greint frá því að fimm til tíu innanlandssmit hefðu greinst eftir hádegi í gær. Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, sagði í samtali við mbl í gærkvöldi að sum þessara smita tengdust eldri smitum sem hafa komið upp. Önnur hefðu ekki þekktar tengingar við eldri smit.

Hertar aðgerðir vegna bylgju nýsmita sem nú hefur komið upp taka gildi á hádegi í dag. Þar með verða fjöldamörk samkomubanns lækkuð í hundrað og tveggja metra reglunni komið aftur á. Upplýsingafundur almannavarna verður haldinn vegna veirunnar klukkan 14 í dag og sýndur í beinni útsendingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×