Innlent

Þríeykið snýr aftur á upplýsingafundi í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Alma D. Möller, landlæknir.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir og Alma D. Möller, landlæknir. Vísir/vilhelm

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis boða til upplýsingafundar vegna faraldurs kórónuveiru klukkan 14 í húsakynnum landlæknisembættisins við Katrínartún. 

Hið svokallaða þríeyki, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Alma D. Möller, landlæknir, koma öll þrjú saman á ný eftir talsvert hlé. Með þeim á fundinum verður Óskar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Óskar og þríeykið munu fara yfir stöðu mála varðandi framgang faraldurs kórónuveiru hér á landi. 

Dagurinn í dag markar nokkur tímamót en á hádegi, tveimur tímum fyrir upplýsingafund, taka gildi hertar aðgerðir vegna þess fjölda smita sem komið hefur upp á landinu síðustu daga. Fjöldamörk samkomubanns lækka þar með niður í hundrað og þá verður tveggja metra reglunni komið aftur á.

Upplýsingafundurinn verður sýndur í beinni útsendingu hér á Vísi og á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×