Innlent

Allir nema fjórir til­heyra stórri hóp­sýkingu á suð­vestur­horninu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis.
Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis. Lögreglan

Af þeim 28 innanlandssmitum sem staðfest eru á landinu tilheyra 24 stórri hópsýkingu á suðvesturhorni landsins. Þetta kom fram í máli Kamillu Sigríðar Jósefsdóttur staðgengils sóttvarnalæknis á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar og almannavarna í dag. Þá sagði hún það áhyggjuefni að einstaklingur sem flokkaður er með annarri hópsýkingu virðist ótengdur henni.

Tíu manns greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og alls eru 39 í einangrun á landinu. Af nýju smitunum greindust níu á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og einn hjá Íslenskri erfðagreiningu. 215 eru í sóttkví, samkvæmt tölum á Covid.is.

„Þar er fyrst að nefna stóra hópsýkingu hér á suðvesturhorninu, þar sem eru í rauninni fimm aðskildir angar sem allir tengjast sama. Þetta eru 24 einstaklingar,“ sagði Kamilla.

Þá tilheyra fjórir einstaklingar annarri hópsýkingu. „Þar er einnig áhyggjuefni að ótengdur einstaklingur er þeirra á meðal,“ sagði Kamilla. Þá er stakt smit til viðbótar sem tengist mögulega annarri hópsýkingunni. Það er þó ekki staðfest.

Innflutt smit eru ellefu og einn úr þeim hópi setti af stað aðra hópsýkinguna, að sögn Kamillu. Þá var einn lagður inn á Landspítalann í morgun með Covid-19, líkt og fram kom í morgun.

Margir af þeim sem greindust með veiruna í gær voru í sóttkví en ekki allir. Kamilla sagði að þannig væri ekki útséð hversu margir yrðu í sóttkví í lok dags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×