Íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir kom fyrst í mark í sínum flokki í árlegu hjólakeppninni sem fór fram í kringum Laugarvatn um helgina.
CrossFit fólkið þarf að vera tilbúið í alla mögulegar æfingar í sínum keppnum og þar á meðal að hjóla. Æfingar og keppnir á hjóli hafa greinilega skilað sínu hjá Söru.
Sara Sigmundsdóttir kom fyrst í mark í flokki 20 til 29 ára í KIA Silfurhringnum með því að klára kílómetrana fimmtíu á einum klukkutíma, 47 mínútum og sex sekúndum.
Mótshaldarar þurftu reyndar að breyta leiðinni skömmu fyrir keppni og að þessu sinni var hjóla í vestur í Silfurhringnum frá Laugarvatni upp Lyngalsheiðina og í átt að Þingvöllum. Þaðan var síðan farið sömu leið til baka.
Sara sagði frá árangri sínum á Instagram: „Tók þátt í Silfurhringnum á laugardaginn og það gekk mun betur en ég hefði getað ímyndað mér,“ skrifaði Sara eins og sjá hér fyrir neðan.
Sara Sigmundsdóttir endaði í sjöunda sæti í opna flokki KIA silfurhringsins. Margrét Pálsdóttir vann KIA silfurhringinn í kvennaflokki, Helga Guðrún Ólafsdóttir varð önnur og Anna Cecilia Inghammar tók þriðja sætið.
Margrét Pálsdóttir kom í mark á einum klukkutíma, 33 mínútum og 27 sekúndum og var því rúmum tólf mínútum á undan Söru. Sara varð tæpum níu mínútum frá verðlaunapallinum í opnum flokki.
Sam Gateman vann KIA gullhringinn í karlaflokki, Huub Deelstra varð annar og Eyjólfur Guðgeirsson varð þriðji.
Elín Björg Björnsdóttir vann KIA gullhringinn í kvennaflokki, Hrefna Sigurbjörg Jóhannsdóttir varð önnur og Katrín Pálsdóttir varð þriðja.
Ole Bjorn Smisethjell vann KIA silfurhringinn í karlaflokki, Brynjar Örn Borgþórsson varð annar og Guðni Ásbjörnsson varð þriðji.
Guðmundur Arason Öfjörð vann KIA bronshringinn í karlaflokki, Yngvi Guðmundsson varð annar og Sigurður Grétar Ólafsson varð þriðji.
Þóra Katrín Gunnarsdóttir vann KIA bronshringinn í kvennaflokki, Kristín Pálsdóttir varð önnur og Elísabet Jónsdóttir varð þriðja.