Tveir leikir fóru fram í Pepsi Max-deild kvenna í gærkvöldi. Þróttur vann nýliðaslaginn í Kaplakrika og á Origo-vellinum höfðu Íslandsmeistararnir betur gegn Stjörnunni.
Það voru liðnar rúmlega þrjátíu sekúndur er Stephanie Mariana Ribeiro kom Þrótti yfir gegn FH en Hrafnhildur Hauksdóttir jafnaði fyrir FH á 37. mínútu.
FH vildi fá vítaspyrnu fyrir hlé en fékk ekki. Guðni Eiríksson, þjálfari FH, mótmælti kröftuglega og uppskar rautt spjald en sigurmarkið skoraði Ribeiro skömmu fyrir leikhlé. Lokatölur 2-1.
Þróttur er því komið með fjögur stig í sjöunda sæti deildarinnar en FH er í níunda sætinu án stiga.
Valur gerði nánast út um leikinn á fyrsta stundarfjórðungnum. Hlín Eiríksdóttir skoraði strax á 5. mínútu og tíu mínútum síðar tövfaldaði Ída Marín Hermannsdóttir forystuna.
Eftir klukkutíma leik rak svo Ásdís Karen Halldórsdóttir síðasta naglann í kistu Stjörnustúllkna og lokatölur 3-0.
Valur með fullt hús á toppi deildarinnar, fimmtán stig, en Stjarnan er í sjötta sætinu með sex stig.