Innlent

Ráðherra segir stöðuna þunga eftir lokun PCC

Sylvía Hall og Tryggvi Páll Tryggvason skrifa

Fjármálaráðherra vonar að öll sú uppbygging sem fram hefur farið á Bakka verði til þess að kísislmálmverksmiðjan þar eigi framtíðina fyrir sér.

Það er þungt yfir á Húsavík eftir að tilkynnt um tímabundna lokun kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka. Um 80 af 110 starfsmönnum missa vinnnuna. Forstjóri PCC baðst undan viðtali í dag og segist ekki vita hvenær markaðir glæðist á ný svo hægt verði að opna aftur.

Fjármálaráðherra segir stöðuna þunga í sveitarfélaginu eftir ágætan uppgang.

„Þess vegna má segja að þetta nærsamfélag þarna sé að verða fyrir tvöföldu áfalli, með því að ferðaþjónustan er að skreppa svona mikið saman á sama tíma og þetta er að gerast,“ segir Bjarni Benediktsson.

Áhyggjur ráðherra kristallast í tölum um skipakomur í Húsavíkurhöfn.

Árið 2013 komu þrjú flutningaskip í höfnina. Árið 2018 þegar starfsemi PCC hófst voru þau 64, á síðasta ári 65. Þeim mun líklega fara fækkandi eftir lokun PCC.

Þá er aðeins reiknað með sex farþegaskipum þetta árið og búast má við fækkun á komu flutningaskipa eftir lokun PCC. Ráðist hefur verið í miklar fjárfestingar á hafnarsvæðinu í tengslum við uppbyggingu á Bakka.

Til að mynda greiddi ríkið 3,5 milljarða fyrir jarðgöng sem tengja Bakka við hafnarsvæðið. Ráðherra vonar þó til þess að þessi uppbygging skili sínu.

„Þetta aðgengi að orkunni sem þarna er, ágætis hafnaraðstaða og öll uppbyggingin sem þegar er komin, það gefur manni tilefni til að vera bjartsýnn á að þetta fyrirtæki eigi framtíð og atvinnusvæðið allt á Bakka.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×