Tveir reyndust vera smitaðir af kórónuveirunni við komuna til landsins í gær. Annar þeirra, erlendur ferðamaður frá Kaupamannahöfn, var þó með mótefni við veirunni. Því var um gamalt smit að ræða og þarf viðkomandi ekki í sóttkví.
Þetta kom fram á upplýsingafundi um opnun landamæra Íslands.
Hinn sem greindist var Íslendingur sem var einnig að koma frá Kaupmannahöfn. Hann var ekki með mótefni gegn veirunni og þarf því að fara í einangrun. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagðist ekki vita hver einkenni Íslendingsins væru, en hann væri þó ekki mjög veikur.
Um ellefu hundruð ferðamenn komu til landsins í gær, þar af um hundrað börn sem eru undanþegin sýnatöku. Enginn einstaklingur valdi að fara í sóttkví og voru því sýni tekin úr 927 einstaklingum.
Á upplýsingafundi Almannavarna kom fram að sýnatökur í gær hafi gengið vel í meginatriðum þó að hnökrar hafi komið upp eins og búist var við. Það verði greitt úr þeim nú til þess að sýnatökurnar geti gengið vel fyrir sig.