Íslenska CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir varð í öðru sæti á hinu gríðarlega sterka Rogue Invitational móti sem fór fram um helgina. Hún var mjög ánægð með að fá þetta mót á þessum skrýtnum tímum þótt að mótið hafi líka verið allt öðruvísi upplifun en hún er vön.
Sara keppti á heimavelli eins og allir keppendur því mótið var netmót þar sem allir keppendur kepptu á sama tíma og voru æfingar þeirra sendar út í beinni útsendingu í gegnum netið.
Sara fékk því að gera sínar æfingar í mótinu í Simmagym í Keflavík. Sara gerði upp mótið í snörpum pistil á Instagram reikningnum sínum.
Nýjasti meðlimurinn í fjölskyldu Söru fékk sérstakt hrós en Sara er nýbúin að eignast hvolpinn Mola.
„Ég er svo þakklát fyrir það að Roogue Fitness frestaði ekki Rogue Invitational mótinu og breytti því í netmót í staðinn. Það hjálpaði mikið að hafa að einhverju að stefna að á þessum skrýtnu tímum,“ byrjaði Sara Sigmundsdóttir pistil sinn þar sem hún fór yfir mótið um helgina.
„Þetta var mjög ólíkt því sem við erum vön þar sem við gerðum æfingarnar á sama tíma en úr okkar eigin æfingasal og í beinni í gegnum netið. Það var vissulega skrítið að gera þetta svona en keppnin var virkilega virkilega skemmtileg,“ skrifaði Sara.
„Ég viðurkenni að það mjög furðulegt í fyrstu að keppa í algjörri þögn en ég vandist því fljótt að heyra fallegu hljóðin frá andardrættinum mínum. Ég var mjög ánægð með æfingarnar sem og það að ég fékk að keppa við næstum því allar þær bestu í heimi. Það gerði þetta að alvöru móti og að mikilli keppni. Þetta var alvöru bardagi,“ skrifaði Sara.
„Eitt sem var virkilega öðruvísi frá því að keppa á venjulegu móti var að ég fékk koss frá hundinum mínum eftir hverja grein. Ég mun örugglega sakna þess,“ skrifaði Sara.
„Ég vil þakka öllum þeim sem aðstoðuðu mig við að setja allt upp í Simmagym um helgina. Þið vitið hver þið eruð. Ég vil líka þakka fólkinu hjá Rogue að koma þessu á laggirnar og einnig öllum fyrir allar kveðjurnar sem ég hef fengið. Ég kann svo sannarlega að meta það,“ skrifaði Sara.