Erlent

Mál Madelein­e Mc­Cann: Rann­saka hvort hinn grunaði tengist hvarfi sex ára drengs

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
René Hasee (til vinstri) hvarf sporlaust þegar hann var ásamt fjölskyldu sinni í fríi í Portúgal árið 1996. Madeleine McCann er á myndinni til hægri.
René Hasee (til vinstri) hvarf sporlaust þegar hann var ásamt fjölskyldu sinni í fríi í Portúgal árið 1996. Madeleine McCann er á myndinni til hægri.

Lögreglan í Þýskalandi hefur tekið hvarf drengsins René Hasee, sem hvarf sporlaust í Portúgal árið 1996, aftur til rannsóknar. Lögreglan kannar nú hvort maður sem grunaður er um að tengjast hvarfi hinnar bresku Madeleine McCann árið 2007, kunni að bera ábyrgð á hvarfi René.

Maðurinn er einnig talinn geta tengst hvarfi hinnar fimm ára gömlu Ingu Gehrike sem hvarf árið 2015 í Þýskalandi. Stúlkan hvarf úr grillveislu fjölskyldu sinnar í Saxlandi-Anhalt og talið er að hún hafi týnst eftir að hafa haldið inn í skóg í leit að eldivið.

Faðir René sem hvarf þegar fjölskyldan var í fríi í Portúgal árið 1996 segir að nýjustu vendingar í máli Madeleine McCann hafi blásið honum von í brjóst um að hann muni loks komast að því hvað hafi orðið um son hans.

Andreas Hasee, faðir drengsins, segir að þýskur rannsóknarlögreglumaður hafi hringt í sig á föstudag og staðfest að mál sonar hans verði nú rannsakað á ný. Rannsóknin hafi verið enduropnuð vegna þess að borið hefur verið kennsl á mann sem talinn er hafa komið að hvarfi Madeleine McCann.

Þýskir rannsakendur telja að hinn 43 ára gamli maður, sem gengur undir nafninu Christian Brückner, gæti tengst málunum þremur. Brückner afplánir nú sjö ára fangelsisdóm í þýsku fangelsi fyrir nauðgun á eldri, bandarískri konu í Algarve í Portúgal, þar sem fjölskylda Madeleine dvaldi þegar hún hvarf. Hann hefur áður hlotið dóma fyrir kynferðisbrot gegn börnum.

Rannsókn Sky News á síðasta ári leiddi í ljós að grunur hafi beinst að Christian B. í rannsókninni á hvarfi Ingu. Hafi lögregla gert húsleit á heimili hans um ári eftir að Inga hvarf, en sú leit hafi ekki leitt til annarra aðgerða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×