Fótbolti

Elías fær mikið lof: „Getur allt og verður sölu­vara fyrir Mid­tjylland“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Elías Rafn fagnar sigri með U19 liði Midtjylland á síðustu leiktíð.
Elías Rafn fagnar sigri með U19 liði Midtjylland á síðustu leiktíð. vísir/getty

Íslenski unglingalandsliðsmaðurinn, Elías Rafn Ólafsson, fær mikið lof í grein Ekstra Bladet en í þeirri grein er fjallað um þá leikmenn sem hafa skarað fram úr í 2. deildinni í Danmörku.

Elías er á láni hjá Århus Fremad frá Midtjylland en hann hefur staðið sig vel í marki Árósar-liðsins sem er í toppsæti í öðrum riðlinum í 2. deildinni. Hún er þó enn í pásu vegna kórónuveirunnar og óvíst er hvenær hún fer aftur af stað.

Þjálfarar liða í deildinni voru beðnir um að nefna þá leikmenn sem hafa verið bestir á leiktíðinni og í það minnsta tveir þjálfarar fóru fögrum orðum um markvörðinn hávaxna en hann er 201 sentímetrar að hæð.

„Hann er mjög góður. Mikið efni. Hann er góður í teignum og það geislar af honum. Hann tekur allt það sem hann á að taka og aðeins meira en það. Það er sjaldan sem maður sér markvörð gera það þegar hann er ekki eldri en þetta,“ sagði Tom Sojberg, þjálfari Brabrand.

„Hann er hávaxinn markvörður en hagar sér ekki þannig. Hann hefur mikinn sprengikraft og hann er eitt mesta efnið,“ bætti Tom við.

Bo Zinck, þjálfari Jammerbrugt, tekur í sama streng.

„Hann er góður. Hann er besti markvörðurinn í 2. deildinni. Hann getur allt: Spilað með fótunum, rólegur og með góð viðbrögð. Hann hefur allt til þess að spila í úrvalsdeildinni og meira til. Hans pakki dugar í það minnsta að spila í úrvalsdeildinni,“ sagði Bo.

„Hann verður stærri og sterkari á hverri einustu æfingu. Hann verður skrímsli í Superligunni ef þeir fá hann þangað inn. Hann verður efni til þess að selja fyrir Midtjylland.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×