Innlent

Ómögulegt að segja til um hvort tvö þúsund manna samkomur verði leyfðar í sumar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þórólfur Guðnason er sóttvarnarlæknir.
Þórólfur Guðnason er sóttvarnarlæknir. Mynd/Lögreglan

Það er ómögulegt að segja til um hvort eða þá hvernig allt að tvö þúsund manna fjöldasamkomur verði leyfðar í sumar. Það mun ráðast af því hvernig faraldurinn þróast.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnarlæknis á daglegum upplýsingafundi almannavarna í dag.

Töluverð umræða hefur skapast um hvort yfirhöfuð verði hægt að halda fjölmennar samkomur í sumar, en í minnisblaði sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra er meðal annars lagt til að tvö þúsund gesta hámark verði sett á samkomur að minnsta kosti út ágúst.

Ekkert hefur þó verið ákveðið í þeim efnum og ræddi Þórólfur um þetta á fundinum í dag.

„Við erum að reyna að fara bil beggja með því að tala um sumarið. Hvenær nákvæmlega tvö þúsund manna samkomur verða settar á eða leyfðar, það er ómögulegt að segja eða bara hvort yfirleitt,“ sagði Þórólfur.

Það færi alfarið eftir því hvernig faraldurinn myndi þróast.

„Ef að faraldurinn fer kannski að fara upp á við, ég tala nú ekki um ef að hann fer að koma þar sem menn áætla að halda svona samkomur þá held ég að það segi sig nú sjálft að það þarf að grípa til strangari aðgerða. Þetta er endurmat á hverjum degi sem þarf að eiga sér staðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×