Innlent

Úthlutuðu 41 verkefni styrk úr Barnamenningarsjóði

Andri Eysteinsson skrifar
Forsætisráðherra, Mennta- og menningarmálaráðherra ásamt styrkþegum.
Forsætisráðherra, Mennta- og menningarmálaráðherra ásamt styrkþegum. Stjórnarráðið

Styrkjum úr barnamenningarsjóði var úthlutað í dag og hlutu 41 verkefni styrki sem námu alls 92 milljónum króna en alls bárust 112 umsóknir. Úthlutað er úr sjóðnum í annað sinn en hann var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldisins. Hlutverk sjóðsins er að styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífinu.

Það voru þær Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra sem fluttu ávörp við úthlutun úr sjóðnum í Hörpu í dag.

Hæsta styrkinn hlaut Kópavogsbær í samstarfi við H.C. Andersen safnið í Óðinsvéum, Múmín-safnið í Tampere og Undraland Ilons í Haapsalu en verkefnið hlaut 6,5 milljónir króna. Verkefnið Vatnsdropinn er fyrsta alþjóðlega og þverfaglega menningarverkefnið sem tengir norrænar barnabókmenntir við þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Háskóli Íslands- stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í samstarfi við Andrúm arkitekta ehf og Gagarín ehf hlaut fimm milljónir og menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs í samstarfi við Þjóðleikhúsið og fleiri hlaut 4,6 milljónir til styrktar verkefninu Þjóðleikur.

Sjá má lista yfir öll þau verkefni er hlutu styrk á vef Stjórnarráðsins en þar er verkefnunum einnig lýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×