The Mamas komu, sáu og sigruðu í Melodifestialen 2020 sem fram fór í Stokkhólmi í kvöld frammi fyrir þrjátíu þúsund manns í stappaðri Friends Arena. Lag þeirra Move er því framlag Svía til Eurovision sem fram fer í Rotterdam í Hollandi í maí.
Eftir fjögur undanúrslitakvöld og eitt aukakvöld kepptu tólf lög á úrslitakvöldinu. Um er að ræða stærsta sjónvarpskvöld þeirra Svía og ríkir jafnan mikil eftirvænting fyrir kvöldinu.
Líkt og hér heima voru það áhorfendur í símakosningu til móts við atkvæði alþjóðlegra dómnefnda sem réðu því hvernig úrslitin yrðu. Aðeins einu stigi munaði að lokum á Move og Dotter sem flestir reiknuðu með að myndi vinna.
1. The Mamas - Move 137 stig
2. Dotter - Bulletproof 136 stig
3. Anna Bergendahl - Kingdom Come 107 stig
Að neðan má sjá lögin sem höfnuðu í þremur efstu sætunum.
Þess má geta að Ísland var fulltrúi Norðurlandanna í alþjóðlegu dómnefndinni í ár. Kom það í hlut Selmu Björnsdóttur, Eurovision-fara Íslands árið 1999 og 2005, að kynna stigin frá Íslandi.
The Mamas fengu 8 stig frá Íslandi, Anna Bergendahl 10 stig og Dotter 12 stig.