Erlent

Fólki á leið í lúxusfrí vísað frá Frakklandi

Andri Eysteinsson skrifar
Það er ekki margt um manninn á frönsku rivíerunni.
Það er ekki margt um manninn á frönsku rivíerunni. Getty/Francois Lochon

Franska lögreglan þurfti á dögunum að stöðva för tíu ferðamanna sem flogið höfðu á einkaþotu frá Lundúnum til Marseille. Hópurinn, sem samanstóð af sjö karlmönnum á fimmtugs- og sextugsaldri og þremur konum á þrítugsaldri, voru á leið til borgarinnar Cannes í suður-Frakklandi.

Frönsku landamæralögreglunni var gert viðvart um tilraunir fólksins til að fljúga til landsins en útgöngubann er í gildi í Frakklandi vegna kórónuveirunnar. Hafa verið settar reglur sem banna óþarfa komur ferðamanna til landsins, eingöngu er þeim hleypt til landsins sem þangað eru komnir til þess að aðstoða í heilbrigðiskerfinu.

Fólkinu var gert viðvart um að þeim yrði neituð innganga en flugvél þeirra lenti engu að síður í Marseille, þar beið þeirra þyrlufloti. CNN greinir frá því að einn mannana, króatískur viðskiptajöfur, hafi greint yfirvöldum frá því að hann hafi leigt þyrlurnar, einkaþotuna og glæsihýsi í Cannes.

Hann ætti nóg af peningum og væri tilbúinn til að borga bara sekt og halda svo til Cannes.

Djúpir vasar mannsins veittu honum enga sérmeðferð og var honum snúið rakleitt aftur til Lundúna. Fram kemur í frétt CNN að ekki hafi verið hægt að sekta fólkið þar sem það hafði í raun ekki verið komin inn í franska lögsögu. Aðra sögu er að segja af þyrluflugmönnunum sem höfðu ekki fengið ferðaleyfi en óþarfa ferðir eru bannaðar vegna kórónuveirunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×