Þreifingar hafa átt sér stað milli íslenskra stjórnvalda, KSÍ og fulltrúa enskra úrvalsdeildarliða um að æfingar liða fyrir lokasprett ensku úrvalsdeildarinnar fari fram á Íslandi.
Fréttablaðið segir frá þessu í dag en þar kemur fram að árangur Íslands í baráttunni við kórónaveirufaraldurinn sé helsta ástæðan.
Í fréttinni kemur einnig fram að spænsk úrvalsdeildarlið hafi líka sýnt sama áhuga en að þær hugmyndir eru styttra á veg komnar.
Áhugi hérlendis er mikill enda ljóst að svo stórt verkefni nú væri mikill fengur fyrir íslenskt efnahagslíf. Umsvif liðanna hérlendis yrðu umtalsverð og kastljós fjölmiðla yrði á landinu á meðan knattspyrnustjörnurnar heimsþekktu dveldu hér við æfingar, segir í Fréttablaðinu.
Tíðni smita á Íslandi eru mjög lág um þessar mundir og þá hjálpar það til við skipulagninguna að hérlendis eru góðir innviðir og næg hótelrými.
Næsti fundur liðanna í ensku úrvalsdeildinni er 18. maí næstkomandi og þá mun væntanlega vera endanlega ákveðið hvernig haldið verður á málunum og hvenær enska úrvalsdeildin fer aftur af stað.
Það er pressa á að ná fram niðurstöðu því UEFA, evrópska knattspyrnusambandið, hefur bara gefið deildunum frest til 25. maí til að ákveða með hvaða hætti keppni verður lokið eða hvort hún verði blásin af.
Það á því enn ýmislegt eftir að gerast áður en slíkar æfingarbúðir verða staðfestar. Íslensk yfirvöld munu því ekki ráðast í endanlegar útfærslur á dvöl knattspyrnuliðanna fyrr en formlegar beiðnir berast að utan.