Menning

Arnaldur: „Ég lít ekki á þetta sem íþróttakeppni“

Jakob Bjarnar skrifar
Arnaldur: Það fer mikil vinna í að setja saman skáldverk, hún tekur yfir heilt ár og ég á ekki endilega auðvelt með það. Það hefur ekkert breyst með árunum.
Arnaldur: Það fer mikil vinna í að setja saman skáldverk, hún tekur yfir heilt ár og ég á ekki endilega auðvelt með það. Það hefur ekkert breyst með árunum. Getty/ulf andersen

„Já, það kemur mér alltaf jafn ánægjulega á óvart að sjá hvað ég á traustan lesendahóp og auðvitað er ég mikið þakklátur fyrir hann,“ segir Arnaldur Indriðason rithöfundur í samtali við Vísi.

Nú þegar þetta er skrifað er bóksalan að ná hámarki. Bóksölumenning Íslendinga hefur vakið athygli langt út fyrir landsteina en fyrir jól seljast fleiri bækur en annars yfir allt árið. Bókin er langvinsælasta jólagjöfin og hefur haldið sínu sem slík í gegnum árin. Eru þess fá dæmi á heimsvísu.

Og sá sem heldur betur hefur haldið sínu í því sambandi og lagt sitt af mörkum er einmitt glæpasagnahöfundurinn Arnaldur. Samkvæmt nýjum lista sem Vísir birti nú fyrir stundu trónir hann sem fyrr á toppnum með vinsælustu bókina. Eins og verið hefur undanfarin árin. Þau fara að nálgast annan tuginn en bækur hans hafa verið að seljast í um 20 þúsund eintökum hér á landi. Bækur hans hafa selst í 20 milljónum eintaka á heimsvísu.

Mikil vinna bak við hverja bók

Í bóksölufári spyr blaðamaður Vísis Arnald hvort einhvern tíma hafi farið um hann; að hann væri hugsanlega að tapa toppsætinu?

„Ég lít ekki á þetta sem íþróttakeppni um toppsæti. Um hver jól kemur út ótrúlegur fjöldi af góðum bókum eftir frábæra rithöfunda og það eru forréttindi að fá að taka þátt í þeirri sköpun allri,“ segir Arnaldur.

Spurður hvort það veitist honum auðveldara eða erfiðara að setja saman bók eftir því sem þeim fjölgar segir hann að það taki alltaf sinn tíma, sinn toll.

„Ég glími alltaf við þennan ótta að klára ekki bók sem ég hef byrjað á en það hefur ekki gerst enn.

Það fer mikil vinna í að setja saman skáldverk og hún tekur yfir heilt ár og ég á ekki endilega auðvelt með það. Það hefur ekkert breyst með árunum.“

 

Kominn á skrið með næstu bók

Arnaldur segist vona að bækur hans hafi í gegnum tíðina tekið einhverjum breytingum.

„Allir rithöfundar þurfa að þroskast og eru í rauninn alltaf að læra. Í mínu tilfelli er ég að vona að ég hafi einfaldað skáldskapinn með árunum, fækkað orðunum eða notað þau betur sem ég brúka.“

Það er svo gaman að geta sagt fjölmörgum aðdáendum Arnaldar af því að hann er hvergi nærri af baki dottinn, hann er ekki á þeim buxunum að leggja frá sér pennann.

„Ég er kominn vel á skrið með næstu bók og ég veit að það verður eitthvað framhald á sögunni um Konráð. Ég hef ekki séð fyrir endann á henni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×