Innlent

Draumur að upplifa hvít jól

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Það hefur lengi verið draumur að upplifa hvít jól segja ferðamenn sem kusu að verja jólunum á Íslandi. Það hafi ekki komið að sök þótt margar verslanir og veitingastaðir hafi verið lokaðir. Slegist er um vaktirnar á sumum þeirra veitingastaða sem eru opnir um jólin.

Það lá vel á hópi ferðamanna frá Filippseyjum sem fréttastofa rakst á í miðborginni í dag. Þeir kváðust himinlifandi með dvölina á Íslandi en þeir sögðust hingað komnir til að upplifa hvít jól, íslenska náttúru og binda vonir við að komast í bláa lónið á morgun. Þá ætla þau að fagna afmæli eins úr hópnum. Þótt margir veitingastaðir hafi verið lokaðir í gær og í dag segjast þau hafa fundið eitthvað fyrir rest.

Hard Rock Café í Lækjargötu er einn af þeim fáu veitingastöðum sem opnir voru í gær og í dag en þar hefur verið afar mikið að gera að sögn Ágústs Ottós Pálmasonar sem starfar í móttökunni á Hard Rock.

„Það hafa engir Íslendingar ennþá pantað borð, bara útlendingar og mikið af þeim og allir voða ánægðir,“ segir Ágúst. Það hafi ekki reynst erfitt að manna vaktirnar um jólinn. „Ég held að það sé bara nokkurn veginn slegist um þessar vaktir, það er svo vel borgað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×