Erlent

Fundu höfuð og lík í „draugaskipi“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Skipið rak á land á Sado-eyju.
Skipið rak á land á Sado-eyju. Vísir/getty

Líkamsleifar að minnsta kosti fimm manna fundust um borð í skipi sem rak á fjörur Sado-eyju, norðvestur af Japan, á föstudag. Viðbragðsaðilar komust ekki að skipinu fyrr en í dag vegna veðurs.

Í frétt BBC segir að skipið hafi verið afar illa farið og á skipsskrokknum hafi verið kóreskt letur. Um borð í skipinu voru fimm lík, auk tveggja mannshöfða, en ekki hefur fengist staðfest hvort höfuðin eru af líkunum. Ástand líkamsleifanna er jafnframt talið benda til þess að líkin hafi verið lengi á hafi úti.

„Draugaskip“ af þessu tagi, sem talin eru frá Norður-Kóreu, eru nokkuð algengt við Japansstrendur, að því er segir í frétt BBC. Skipin eru venjulega mannlaus eða með líkamsleifar innaborðs, líkt og í þessu tilviki.

Skipverjarnir í skipum sem þessum, sem sumir telja flóttamenn eða njósnara frá Norður-Kóreu, eru taldir látast úr hungri eða kulda. Þá gæti reynst erfitt að rannsaka skipbrotið nú til hlítar vegna spennu sem einkennt hefur milliríkjasamband Japan og Norður-Kóreu síðustu misseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×