Tónlist

Sigurvegarar Kraumsverðlaunanna 2019

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Sigurvegararnir á verðlaunaafhendingunni í kvöld.
Sigurvegararnir á verðlaunaafhendingunni í kvöld. kraumur

Kraumsverðlaunin voru afhent á Bryggjunni Brugghúsi klukkan 17 í dag. Sex plötur voru valdar af Kraumslistanum, sem telur 25 plötur. Voru þær valdar úr rúmlega 350 íslenskum plötum sem dómnefnd rýndi í. 

Verðlaunin eru veitt íslenskum hljómplötum sem þykja hafa skarað fram úr á árinu hvað varðar gæði, metnað og frumleika. Eftirfarandi plötur hlutu Kraumsverðlaunin 2019:

  • Between Mountains - Between Mountains
  • Bjarki - Happy Earthday
  • Gróa - Í glimmerheimi
  • Hlökk - Hulduljóð
  • K.óla - Allt verður alltílæ
  • Sunna Margrét - Art of History



Dómnefndina í ár skipa; Árni Matthíasson (formaður), Arnar Eggert Thoroddsen, Birna María Másdóttir, Helga Þórey Jónsdóttir, Óli Dóri, Tanya Lind, Trausti Júlíusson og Þorbjörg Roach Gunnarsdóttir.

Umslög platnanna sem hlutu verðlaunin í ár.

Athygli vekur að sigurplöturnar í ár eru allar eftir konur, að undanskildri plötu Bjarka.

Vestfirska tvíeykið Between Mountains gaf út sína fyrstu plötu í ár, en þær hafa vakið verðskuldaða athygli síðan þær sigruðu Músíktilraunir árið 2017. Teknógúrkutröllið Bjarki er líklega fremstur meðal íslenskra jafningja en er þó miklu þekktari erlendis heldur en heima fyrir. 

Gáskafulla pönksveitin Gróa gaf út sína aðra plötu í ár þrátt fyrir að þær stöllur séu ekki enn skriðnar yfir tvítugt. Þær og k.óla eru hluti listahópsins post-dreifingar, en Allt verður alltílæ er einnig önnur plata k.óla, sem er listamannsnafn tónsmíðanemans Katrínar Helgu Ólafsdóttur.

Hlökk er listahópur skipaður þeim Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttur, Lilju Maríu Ásmundsdóttur and Ragnheiði Erlu Björnsdóttur. Hulduhljóð er myndræn plata úr þeirra smiðju. Sunna Margrét, sem var áður meðlimur Bloodgroup, gerir sveimandi en brotakennda raftónlist, og blandar henni iðulega við innsetningar og aðra myndræna framsetningu á tónleikum sínum.

Hlusta má á vel valin lög af hverri plötu fyrir sig hér að neðan.

Between Mountains - Between Mountains

Bjarki - Happy Earthday

Gróa - Í glimmerheimi

Hlökk - Hulduhljóð

K.óla - Allt verður alltílæ

Sunna Margrét - Art of History


Tengdar fréttir

Kraumslistinn 2019 birtur

25 íslenskar hljómplötur sem skarað hafa fram úr á árinu valdar úr rúmlega 350.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×