Erlent

Corbyn ekki í brúnni í næstu kosningum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Boris Johnson, leiðtogi Íhaldsflokksins, var að vonum ánægður í nótt þegar útgönguspár báru með sér stórsigur flokksins.
Boris Johnson, leiðtogi Íhaldsflokksins, var að vonum ánægður í nótt þegar útgönguspár báru með sér stórsigur flokksins. Getty/Chris J Ratcliffe

Boris Johnson og Íhaldsflokkur hans unnu stórsigur í þingkosningunum sem fram fóru á Bretlandi í gær.

Verkamannaflokkurinn beið afhroð og tapaði í kjördæmum í norðurhluta Englands sem hafa verið „eign“ verkamanna um áratugaskeið eða jafnvel alltaf. Formaður flokksins segist ekki ætla að vera við stjórnvölinn næst þegar gengið verður að kjörkössunum.

Aðeins á eftir að telja í nokkrum kjördæmum og eins og staðan er nú er líklegt talið að Íhaldsmenn hafi hlotið 363 þingmenn, bætt við sig 47 frá síðustu kosningum. 323 þingmenn þarf til að mynda meirihluta og því ljóst að Íhaldsmenn ná því í og gott betur. Allt virðist stefna í stærsta meirihluti þeirra síðan Margrét Thatcher vann sigur árið 1987. Það mun gera Johnson forsætisráðherra kleift að ljúka við útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, sem var hans helsta kosningaloforð.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, var að sama skapi afar óánægður með úrslit kosninganna. Verkamannaflokkurinn virðist ætla að fá 203 þingmenn, 53 þingmönnum færra en í síðustu kosningum. Afhroð segja greinendur. Corbyn hefur þegar gefið það út að hann ætli sér ekki að leiða flokkinn í næstu kosningum. Hann sagði þó ekki af sér en háværar raddir heyrast nú innan úr flokknum sem krefjast þess að hann víki hið snarasta.

Skoski þjóðarflokkurinn vann síðan stórsigur þar í landi og bætti enn við sig þingsætum, sem þýðir að krafan um aðra atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skota verður nú enn háværari, Johnson til lítillar gleði. Sem stendur er hann með 48 þingsæti sem er bæting um 13 þingmenn.

Hér fyrir neðan má fylgjast með beinni útsendingu frá kosningavöku Sky News, sem stendur enn yfir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×