Innlent

Tón­listar­maðurinn Geiri Sæm látinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ásgeir Magnús Sæmundsson er látinn, 55 ára að aldri.
Ásgeir Magnús Sæmundsson er látinn, 55 ára að aldri.

Tónlistarmaðurinn og matreiðslumeistarinn Ásgeir Magnús Sæmundsson, betur þekktur sem Geiri Sæm, lést á heimili sínu í Reykjavík þann 15. desember. Frá þessu er greint í tilkynningu frá fjölskyldu hans og ástvinum. Banamein Geira var krabbamein.

Ásgeir fæddist í Reykjavík 29. nóvember 1964. Hann stundaði tónlistarnám og byrjaði ungur að semja tónlist og eftir hann liggja fjórar hljómplötur sem hann gaf út ásamt félögum sínum í Pax Vobis og Hunangstunglinu sem og fjöldinn allur af óútgefnu efni.

Fjöldinn allur af tónlistar- og fjölmiðlafólki minnist Geira eftir að fréttist af andláti hans.

Geiri söng, lék á gítar og hljómborð og samdi fjölda laga og texta. Þekktust eru lögin Sterinn, Er ást í tunglinu, Rauður bíll og Froðan sem hefur tvisvar komið út, fyrst í flutningi Geira Sæm og Hunangstunglsins árið 1988 og svo í flutningi Ragga Bjarna og Jóns Jónssonar árið 2012.

Það lag var einmitt eitt af lögunum sem vakin var sérstök athygli á í tilefni af degi íslenskrar tónlistar. Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá Geira flytja lagið á Bylgjunni árið 2013.

 

Síðast gaf Geiri Sæm út lag á 55 ára afmæli sínu nú í nóvember, lagið Sooner than later.

Eftirlifandi eiginkona Ásgeirs er Anna Sigrún Auðunsdóttir og dætur þeirra eru Sonja og Ásgerður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×