Áslaug Arna Sigurbjörnsson dómsmálaráðherra mun fjalla um málefni lögreglu á blaðamannafundi klukkan 13 í dag í Ráðherrabústaðnum. Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu kemur ekkert nánar fram um efni fundarins.
Ráðherra muni fara yfir fundarefnið og í framhaldi gefa kost á viðtölum við fjölmiðla.
Bein útsending verður frá fundinum á Vísi.
Frá miðjum september hefur dómsmálaráðherra unnið að skipulagsbreytingum á löggæslu sem snúa að fækkun lögregluembætta úr níu í sex. Hugmyndir ráðherra er að fækka í yfirstjórn, sameina embætti ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og lögreglunnar á Suðurnesjum en jafnframt að stofna sérstakt embætti landamæra- og öryggislögreglu á Keflavíkurflugvelli.
Lögreglustjórar allra lögregluembætta komu til fundar við dómsmálaráðherra í síðustu viku þar sem tillögur ráðherrans voru kynntar.
Mikil ólga hefur verið um margra mánaða skeið innan lögreglunnar og upp úr sauð eftir að Haraldur Johannessen, ríkislögreglustóri steig fram í viðtali í Morgunblaðinu þar sem hann sagði gagnrýni á embætti sitt vera hluta af markvissri rógsherferð.
Síðan þá hefur ráðherra unnið að breytingum.
Verði sameiningartillögum dómsmálaráðherra hrint í framkvæmd gæti það haft áhrif á störf og stöðu Haraldar Johannessen, ríkislögreglustóra, Ólafs Helga Kjartanssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum og Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu.
Áslaug Arna boðar til blaðamannafundar vegna lögreglunnar

Tengdar fréttir

Fundað um breytingar í löggæslu í vikunni
Ráðuneytisstjóri dómsmálráðuneytisins mun í þessari viku funda með ríkislögreglustjóra og öllum lögreglustjórum landsins þar sem breytingar á löggæslu í landinu verða kynntar. Framtíð Embættis ríkislögreglustjóra liggur ekki fyrir.

Áslaug Arna var ósátt við viðtal ríkislögreglustjóra
Áslaug tekur undir að fjölmiðlafárið sé að miklu leyti komið til vegna þess að Haraldur sjálfur fór í umrætt viðtal og segist hún hafa verið ósátt við framgöngu hans í viðtalinu.