Maður og kona létust í árásinni á brúnni síðdegis í gær og þrír særðust, þar af einn lífshættulega. Samkvæmt upplýsingum frá breskri lögreglu réðst Khan, vopnaður hnífi og íklæddur eftirlíkingu af sprengjuvesti, að vegfarendum. Lögreglumenn skutu hann síðar til bana eftir að hópur almennra borgara réðst að honum, afvopnaði hann og sneri hann niður.
Lögregla skilgreinir árásina sem hryðjuverk. Í frétt BBC segir að Khan hafi verið góðkunningi lögreglu en hann var dæmdur fyrir hryðjuverk árið 2012.

Fleiri eru ekki grunaðir um aðild að árásinni. Þá stendur leit lögreglu yfir í íbúð Khans í Staffordskíri.
Ekkert fórnarlambanna hefur verið nafngreint að svo stöddu. Þá hafa stjórnmálaleiðtogar lofað viðbrögð almennings við árásinni, þar á meðal Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, og Jeremy Corbyn, keppinautur hans hjá Verkamannaflokknum.
Athygli hefur vakið að einn þeirra sem mætti árásarmanninum á brúnni hélt á því sem virðist í fyrstu vera löng hvít stöng. Í ljós hefur komið að um er að ræða náhvalstönn sem aðilinn fjarlægði úr Fishmonger‘s Hall byggingunni í nágrenni London Bridge og hugðist beita gegn árásarmanninum.