Haldið var upp á það í haust að aldarfjórðungur væri nú frá því að fyrsti Friends-þátturinn var sýndur í sjónvarpi, en alls voru framleiddar tíu þáttaraðir af þáttunum vinsælu, 236 þættir.
Viðræður standa nú yfir vegna mögulegrar endurkomu þó að eðli þáttarins liggi enn ekki fyrir. Variety segir að líklegast verði að leikararnir – þau Jennifer Aniston, Courteney Cox, Lisa Kudrow, Matt LeBlanc, Matthew Perry og David Schwimmer – og skaparnir David Crane og Marta Kaufmann muni þar koma saman til að deila sögum og minningum frá framleiðsluárum þáttanna.
Myndi nást samkomulag við alla aðila er sigurinn þó ekki í höfn. Þá taki við það verkefni að reyna að finna tíma fyrir framleiðslu þáttarins þannig allir komist. Slíkt gæti reynst þrautin þyngri þar sem mörg þeirra eru þétt bókuð næstu mánuði.
„Vinna að nokkru“
Hægt er að streyma þáttunum á streymisveitunni Netflix en þeir munu svo færast yfir á veituna HBO Max. Hafa fréttir borist af því að WarnerMedia, sem kemur að HBO Max, greiði 85 milljónir Bandaríkjadala á ári í fimm ár fyrir réttinn til að sýna þættina.Lengi hefur verið rætt um endurræsingu þáttanna en leikarnarnir hafa allir hafnað því að taka þátt í nýjum, leiknum þáttum þar sem þau færu aftur með hlutverk þeirra Rachel, Monicu, Phoebe, Ross, Joey og Chandler.
Jennifer Aniston byrjaði nýverið á Instagram þar sem fyrsta myndin var af öllum sex aðalleikurum þáttanna. Tókst henni að safna fimm milljónum fylgjenda á fyrstu tólf klukkustundunum. Síðar sagði hún í samtali við spjallþáttastjórnandann Ellen DeGeneres að sexmenningarnir væru að „vinna að nokkru“, án þess að útskýra það neitt nánar.
A post shared by Jennifer Aniston (@jenniferaniston) on Oct 15, 2019 at 6:03am PDTView this post on Instagram