Körfubolti

Sjáðu eldræðu Teits um Njarðvík: „Við minnstu mótspyrnu verða þeir litlir kallar og hræddir“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Njarðvík tapaði sínum fjórða leik í röð þegar liðið Stjarnan kom í heimsókn í Ljónagryfjuna. Nikolas Tomsick tryggði Stjörnumönnum dramatískan sigur, 76-78.

Njarðvíkingurinn Teitur Örlygsson hefur áhyggjur af sínum mönnum. Hann var afar ósáttur við frammistöðu þeirra í gær.

„Stjarnan tekur 85 skot í leiknum, Njarðvík 63. Þeir taka 22 skotum meira en hitt liðið. Þá geturðu ekki tapað, sama þótt þú sért með 35% skotnýtingu. Þetta segir okkur hvað þetta var ömurlegur leikur hjá Njarðvík og þeir áttu ekkert skilið,“ sagði Teitur í Domino's Körfuboltakvöldi í gær.

„Við minnstu mótspyrnu verða þeir litlir kallar og hræddir. Meðan það er svoleiðis eru þeir alltaf að elta. Þetta voru eins og börn á móti fullorðnum mönnum.“

Njarðvík var í miklum vandræðum lengst af gegn Stjörnunni og lenti mest 22 stigum undir. Leikur þeirra grænu lagaðist þó þegar þeir byrjuðu að spila svæðisvörn.

„Njarðvík brást miklu betur við boltahindrununum í svæðisvörninni en maður á mann vörninni. Þetta eru nákvæmlega sömu konsept. Af hverju spila þeir ekki svona þegar þeir spila maður á mann vörn. Ég fatta það ekki,“ sagði Teitur og hélt áfram.

„Veistu hvað mér finnst? Þetta er heimska. Það vantar greind í liðið. Að hreyfa sig að boltanum þegar þú sérð hindrun hinum megin á vellinum. Þú lærðir þetta þegar þú varst lítill strákur. Þú verður bara að framkvæma þetta. Ekki hugsa þetta, framkvæma. Meðan Njarðvík getur ekki gert það eru þeir alltaf skrefinu of seinir.“

Eldræðu Teits og umfjöllunina um leik Njarðvíkur og Stjörnunnar má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×