Fótbolti

Dönsku stórliðin horfa til Íslands

Anton Ingi Leifsson frá Kaupmannahöfn skrifar
Orri Steinn Óskarsson og Hákon Arnar Haraldsson.
Orri Steinn Óskarsson og Hákon Arnar Haraldsson. myndir/fck
Dönsk stórlið horfa í ríkara mæli til Íslands í leit að ungum og efnilegum leikmönnum, til þess bæði að styrkja unglingalið félagsins sem og aðalliðin.

Nýjasta dæmið er Orri Steinn Óskarsson sem gekk í raðir FC Kaupmannahöfn frá Gróttu. Orri Steinn, sem er einungis fimmtán ára, mun fyrst um sinn spila með U17-ára liði félagsins.

Fyrir hjá félaginu leika þeir Kristall Máni Ingason og Hákon Arnar Haraldsson. Kristall gekk í raðir Kaupmannahafnarliðsins í janúar á síðasta ári en Hákon í sumar.







Í sumar gekk Ísak Óli Ólafsson í raðir SönderjyskE og hjá Midtjylland er Mikael Anderson. Báðir leika þeir með U21-árs landsliði Íslands en undantekning er þó hjá Mikael sem hefur leikið lengst af á sínum fótboltaferli í Danmörku.

Á dögunum var HK-ingurinn Valgeir Valgeirsson á reynslu hjá Bröndby en Róbert Orri Þorkellsson, leikmaður Aftureldingar, átti einnig að fara til Bröndby en hann fór ekki vegna meiðsla.

Hjörtur Hermannsson leikur með aðalliði Bröndby.

Samkvæmt heimildum Vísis eru fleiri ungir íslenskir leikmenn á leið á reynslu hjá Bröndby á næstu dögum og vikum.

Eftir sömu heimildum hefur Vísir fengið það staðfest að margir njósnarar fylgjast grannt með yngri landsliðum Íslands um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×