Innlent

Fullorðna fólkið á Djúpavogi tók hrekkjavöku með trompi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá hrekkjavöku á Djúpavogi í kvöld.
Frá hrekkjavöku á Djúpavogi í kvöld. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Hrekkjavakan var tekin með trompi á Djúpavogi í dag. Þar voru það ekki aðeins krakkarnir sem klæddust búningum og gervum heldur einnig fullorðnir, eins og sagt var frá í fréttum Stöðvar 2. 

Þannig voru kennararnir í grunnskólanum á Djúpavogi klæddir og málaðir eins og uppvakningar, þegar Stöðvar 2-menn ráku þar inn nefið í hádeginu.

Starfsmenn á Hótel Framtíð á Djúpavogi í gervum sínum í dag. Annar "uppvakningurinn" var með blóðtaumana á hálsinum, hinn á handleggnum.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Á Hótel Framtíð tóku hótelstjórinn og aðrir starfsmenn á móti gestum með „blóðtaumana“ í andlitinu og buðu upp á beinagrindafisk frá Búlandstindi á hádegismatseðli.

Þá mátti sjá ýmsar ófrýnilegar myrkraverur afgreiða gesti veitingastaðarins Við Voginn. Staðurinn var auk þess skreyttur allskyns „hryllingi“.

Guðrún Anna Eðvaldsdóttir, eigandi Hótels Framtíðar, slakar á með "blóðtaumana" í andlitinu og risakönguló á höfðinu á verönd hótelsins síðdegis.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Börnin á Djúpavogi klæddu sig í gervi norna, drauga og annarra hrollvekjandi óvætta þegar þau gengu á milli húsa og buðu upp á „grikk eða gott“. Fyrir yngri börnin var haldið hrekkjavökubúningaball síðdegis en unglingarnir fóru á hrekkjavöku í kvöld í Hálsaskógi skammt utan við Djúpavog með ratleik og draugagangi.

Vinkonur við Djúpavogsskóla í dag.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Fullorðna fólkinu var boðið upp á notalega hugleiðslustund í sundlauginni með „kertaljósum og kósy“ í kvöld. 

Djúpivogur og Búlandstindur skörtuðu sínu fegursta í veðurblíðunni í dag. Til vinstri sést inn í Hamarsfjörð en spegilsléttur Berufjörður opnast til hægri.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Dagskráin á Djúpavogi er hluti af fimm daga byggðahátíð Austurlands sem nefnist Dagar myrkurs. Þar eru Austfirðingar hvattir til samveru og að gera sér glaða daga nú þegar skammdegið fer í hönd og lýsa það upp. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um hrekkjavökuna:

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×