Erlent

Johnson vill kosningar í desember

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Búist er við því að Evrópusambandið samþykki á morgun að fresta útgöngu Bretlands um þrjá mánuði. Hin væntanlega frestun er til komin vegna þess að breska þingið samþykkti frumvarp um að forsætisráðherra væri skuldbundinn til þess að biðja um slíkt, næði hann ekki samningi í gegnum þingið í síðasta lagi síðasta laugardag.

Og þótt samningar hafi náðst í síðustu viku tókst Boris Johnson forsætisráðherra ekki að koma plagginu í gegnum þingið. Bað hann því um frestun, þvert gegn vilja sínum.

Ursula Von der Leyen, verðandi forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði í dag að það hljómaði vel að fresta útgöngu. „Í fyrsta lagi þá lítur spurningin um að fresta útgöngu vel út. Í öðru lagi þá er ekki búið að útkljá seinni spurninguna, sem snýst um lengd frestunarinnar.“

Búist er við því að útgöngu verði frestað um þrjá mánuði. Breska þingið hafnaði í vikunni tillögu Johnsons að áætlun um að klára umræður um útgöngusamninginn í tæka tíð fyrir settan útgöngudag, 31. október.

Forsætisráðherrann ætlar sér að leggja fram tillögu um að boða til kosninga á mánudag. Kosningarnar myndu fara fram þann 12. desember ef þing samþykkir en þingmenn hafa hafnað fyrri tillögum Johnsons um kosningar. Hafa fyrst viljað tryggja að samningslaus útganga sé ekki á borðinu.


Tengdar fréttir

Útlit fyrir að ESB samþykki frestun

Útlit er fyrir að Evrópusambandið samþykki beiðni Bretlandsstjórnar um að fresta útgöngu. Forsætisráðherra Breta vill þó enga frestun fá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×