Boris Johnson forsætisráðherra Breta ætlar að reyna enn á ný í dag að fá þingmenn til að samþykkja kosningar þann 12. desember næstkomandi. Sú tilraun mistókst í gær enda þarf hann tvo þriðju hluta þingmanna á sitt band til að hægt sé að boða til snemmbúinna kosninga. Í dag ætlar hann hinsvegar að freista þess að breyta lögum á þann veg að einfaldur meirihluti dugi.
Johnson sagði þinginu í gærkvöld að það komi ekki til greina að bresk stjórnvöld lamist, en Evrópusambandið hefur veitt Bretum framlengingu á fresti til að fara út úr sambandinu og er nýja dagsetningin 31. janúar á næsta ári.
Svo gæti farið að þessi áætlun Johnson takist en Frjálslyndir demókratar á breska þinginu eru sagðir styðja hugmyndina, verði dagsetningin flutt fram um þrjá daga, til níunda desember, að því gefnu að Johnson hætti tilraunum sínum við að koma samningi sínum við ESB í gegnum þingið.
Breska blaðið Guardian hefur eftir heimildum að slíkar tilraunir verði nú settar á ís. Fái Johnson stuðning frá Frjálslyndum myndi það duga forsætisráðherranum til að fá lagabreytinguna samþykkta.
Reynir enn á ný að boða til kosninga

Tengdar fréttir

Breska þingið hafnar tillögu Johnson um snemmbúnar kosningar
Meirihluti fékkst ekki á breska þinginu fyrir tillögu forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, um að boða til þingkosninga 12. desember næstkomandi.

Samþykktu þriggja mánaða frestun Brexit
Aðildarríki Evrópusambandsins hafa samþykkt að fresta útgöngu Bretlands úr ESB til 31. janúar 2020.